top of page

Um vef og verkefni

Hér á vefnum má finna fjölbreytt verkefni sem tengingu hafa við umhverfið, náttúru eða menningu. Þeim er ætlað að auðvelda og vekja áhuga kennara á átthagafræði og staðtengdu námi, þannig að markvisst megi efla skilning og þekkingu leikskólabarna á eigin heimabyggð. Verkefnin tengjast heimabyggð höfundar og umhverfi leikskólans Kríubóls á Hellissandi og þar er lögð áhersla á að efla átthagafræði og staðtengt nám í leikskólanum. Því fylgir sú von að verkefnin geti verið öðrum leikskólum innblástur að skemmtilegu útinámi með markmið átthagafræði og staðtengds náms að leiðarljósi.

Markmið með verkefnunum er ekki einungis að fræðast um eigin heimabyggð, heldur líka að kennarar þjálfist í því að sjá námstækifærin sem þar felast og öðlist færni í að nýta þau. Nemendur fá tækifæri til þess að byggja á fyrri reynslu úr eigin umhverfi, læra um það, í gegnum það og af því, og þannig má ná fram mikilvægum markmiðum í leikskólastarfi. Tengsl verða til á milli hins þekkta og óþekkta, börnin kynnast eigin menningu og samfélagi, reynsla og þekking aukast og nemendur fá með því tækifæri til þess að hafa áhrif á eigið samfélag.

Verkefnin sem hér eru sett fram eru aldursmiðuð og tengd vissum stöðum í umhverfi leikskólans Kríubóls. Leikskólinn er umkringdur náttúruperlum og umhverfið býður upp á mörg námstækifæri sem nauðsynlegt er að nýta og tengja við grunnþætti aðalnámskrár. Með vefnum fylgir greinargerð og má nálgast hana hér. 

52546730_783454335362327_772833645417830
millilína heimasíða.png

Ég heiti Linda Rut Svansdóttir, uppalin á Hellissandi í Snæfellsbæ og fædd árið 1982. Efnissíða þessi er hluti af  lokaverkefni mínu til meistaragráðu í leikskólakennarafræðum.

 

Árið 2017 útskrifaðist ég með B.Ed. gráðu í leikskólakennarafræðum og hóf það sama ár meistaranám í leikskólakennarafræðum. Þegar kom að því að ákveða lokaverkefni fannst mér mikilvægt að það myndi nýtast og vera gagnlegt í kennslu. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að búa til námsefni. Ég hef brennandi áhuga á útikennslu og legg áherslu á að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem finna má í umhverfinu til þess að ýta undir nám. Þannig geta kennarar og börn fræðst saman á skemmtilegan máta.  

Um höfund

19399993_10155030907753929_3990257218430

Kærleikskveðja

Linda Rut Svansdóttir

bottom of page