top of page

1. Hvar á ég heima?

Markmið

  • Að nemendur þekki heiti og einkenni eigin heimabæjar.

Viðfangsefni

Að kynna nemendum eigið bæjarfélag í gegnum vettvangsferðir, samræður og þeirra eigin uppgötvanir.

 

Leiðir

  • Vettvangsferðir um bæinn þar sem nemendur stjórna för. Markmiðið er að skoða og upplifa eigið bæjarfélag í gegnum skynfærin, fá að snerta, sjá, hlusta, finna lykt og jafnvel smakka.

  • Á Hellissandi má ef til vill sjá mismunandi dýr, sem líka finnst gott að búa á Hellissandi líkt og nemendum og kennara, athuga má hvort hægt sé að finna hundasúrur eða ber, hlusta eftir hljóðum í umhverfinu, hvað þekkja nemendur í bænum sínum og finnst áhugavert að skoða og ræða um?

  • Staldra má við og sýna nemendum lykilstaði bæjarins, eins og til dæmis Sjóminjasafnið, útilistaverkin Beðið í von og Skipið.

  • Muna þarf að hafa meðferðis ílát undir rusl.

 

Hlutverk kennara

Að skipuleggja áhugaverðar vettvangsferðir þar sem hver nemandi fær tækifæri til þess að upplifa heimabæinn á eigin forsendum. Mikilvægt er að kennari gefi sér tíma í ferðunum og hafi það sem þarf til þess að grípa áhuga barnanna.

millilína heimasíða.png

2. Húsið mitt

Markmið

Að nemendur þekki og geti gert grein fyrir útlitseinkennum heimila sinna. Greint mismunandi form, liti, stærð, fjölda og fleira sem sýnilegt er hverju sinni.

 

Viðfangsefni

Að hver nemandi gerist spæjari og rannsaki eigið hús út frá eigin þekkingu og reynslu. Í gegnum úrvinnslu og ferli er lögð áhersla á að vekja áhuga og eftirtekt nemanda á fjölbreyttum formum, stærð, litum og fjölda. Úrvinnsla og ferli getur einnig falist í frásögn, sköpun, hreyfingu, vellíðan og mikilvægi hvers og eins nemanda.

 

Leiðir

  • Áður en farið er í vettvangsferð skoða götukort og merkja við hvar nemendur eiga heima. Spennandi              og gagnlegt er að taka kortið með í vettvangsferðir. Einnig er hægt að nota snjallforritið Wikiloc           taka myndir af húsum nemanda og setja inn í leið sem nemendur fylgja.

  • Vettvangsferð um eigið bæjarfélag þar sem markmiðið er að skoða hús nemendanna og eiga út frá þeim  sem líflegastar umræður um séreinkenni húsanna. Til dæmis: Getum við talið hvað það eru margar hurðir á húsinu hennar Lindu?, Hvað eru margir gluggar á húsinu hennar Lindu?, Hvaða form sé ég á húsinu hennar Lindu?, Númer hvað er húsið hennar Lindu?, Hvað heitir gatan hennar Lindu?, Hverjir eiga heima í húsinu hennar Lindu og hversu margir?, Hvernig er húsið hennar Lindu á litinn?

  • Vettvangsferð með það að markmiði að skoða eitt hús í einu. Áhersla á leiðtogafærni hvers nemanda í hverri vettvangsferð. Ljósmyndir af húsunum prentaðar út og dregið úr skjóðu hvaða hús skuli rannsaka. Sá nemandi sem á heima í húsinu er í aðalhlutverki og fær að leiða hópinn að sínu húsi, sýna hinum og segja frá. Þegar í leikskólann er komið er gagnlegt að skrá niður það sem um var rætt og til dæmis setja upp í hugarkort þar sem myndin af húsinu er í miðjunni og út frá henni margir angar af uppgötvunum nemendanna.

  • Skráning í leikskólanum á verkefnablaðið Húsið mitt, verkefnablaðið má finna hér.

  • Unnið í gegnum sköpun á fjölbreyttan hátt með húsið mitt, mála má málverk, teikna teikningu, mála á mjólkurfernur, móta leir eða vinna úr þeim efniviði sem nemendum og kennurum dettur í hug að gott væri að nota.

  • Leikur að læra-stund, hægt er að nýta myndirnar af húsunum í húsaleik. Myndir af húsum þeirra nemenda sem taka þátt í leiknum lagðar í húlahringi á gólfi, ein mynd í hvern hring, og kennari gerir æfingar með börnunum í röð, þau frjósa og kennari gefur fyrirmæli um að þau ætli ttil að mynda að heimsækja húsið hennar Lindu með því að leggja tásurnar á húlahringinn. Við hringinn spyr kennari til dæmis: Við hvaða götu á Linda heima?, Hvernig er húsið hennar Lindu á litinn?, Hvað getum við séð marga glugga hérna á myndinni?, Getum við hoppað jafn oft og gluggarnir eru margir? Svona heldur leikurinn áfram koll af kolli þangað til búið er að heimsækja hús allra í hópnum.

Hlutverk kennara

Að skipuleggja og undirbúa vettvangsferðir, virkja foreldrasamstarf og fá ljósmyndir af húsi hvers nemanda eða taka myndir af hverju húsi og prenta út. Mikilvægt er að vera búin að skoða vel námstækifærin sem felast í hverju húsi, hvað er það sem hægt er að leggja áherslu á, læsi, stærðfræði, hreyfingu og fleiri þætti sem greina má hverju sinni.

Wickilok.jpg
20190305_132424.jpg
millilína heimasíða.png
bottom of page