top of page

1. Innlit í fiskvinnslu

Markmið

  • Að nemendur fái tækifæri til þess að sjá og kynnast fiskvinnslu í bæjarfélaginu og starfseminni þar.

  • Að þeir átti sig á og þekki ferlið frá því að fiskur er veiddur og þangað til honum er pakkað.

 

Viðfangsefni

Fiskvinnsla heimsótt, í bæjarfélaginu er þrjár fiskvinnslur, sem fróðlegt er að heimsækja til að fylgjast með störfum fiskvinnslufólks.

Leiðir

  • Áður en farið er í heimsókn er mikilvægt að kynna heimsóknina, hvert verið er að fara, hvaða fisktegundum verið er að vinna að í fiskvinnslunni og til hvers ætlast er af nemendum á meðan heimsókninni stendur.

  • Fá þarf leyfi til að taka ljósmyndir í ferðinni þannig að áframhaldandi umræður og fræðsla geti átt sér stað í leikskólanum að heimsókn lokinni.

  • Þegar heim er komið eiga nemendur að skrá upplifun sína eftir vettvangsferðina. Hér má finna það skráningarblað.

Hlutverk kennara

Að taka virkan þátt í heimsókninni, vekja athygli og eftirtekt nemenda á því sem verið er að skoða, grípa áhuga nemenda og vinna áfram með þann áhuga og hugmyndir sem koma fram þegar heim er komið í leikskólann.

millilína heimasíða.png

2. Sjómaður í heimsókn

Markmið

  • Að nemendur fái að sjá og fræðast um þekktar fisktegundir, eins og til dæmis þorsk, ýsu, karfa, lúðu og kola.

  • Að þeir geti áttað sig á og þekkt útlitseinkenni þessara fisktegunda eða þeirra sem hægt er að fá að sjá þann daginn. Útlitseinkenni geta verið litur, stærð og áferð roðs.

 

Viðfangsefni

Í sjávarþorpi líkt og Hellissandi og Rifi, er auðvelt að finna sjómann sem tilbúinn er að koma í heimsókn í leikskólann með nokkrar fisktegundir til þess að sýna nemendunum. Í gegnum heimsóknina fræðast börnin um fisktegundirnar, fá að snerta og finna lykt og spjalla við sérfræðing (sjómanninn).

Leiðir

  • Fræðsla í leikskólanum um fisktegundir í gegnum bækur og vefsíður. Myndir af helstu fisktegundunum hengdar upp á vegg ásamt heiti þeirra og Lubba-tákni fyrir fyrsta hljóðið í heiti þeirra. Myndirnar veita fjölmörg tækifæri til málörvunar um heiti, útlit, stærð og lifnaðarhætti.

  • Sjómaður í heimsókn með fisktegundir með sér, sem hægt er að skoða, snerta og finna lykt af.

  • Vinna með fisktegund, unnið nánar með eina fisktegund. Hugmyndir nemenda um úrvinnslu verkefnis mikilvægar.

 

Hlutverk kennara

Jafnvel að leita samstarfs við foreldra ef að þar í hópnum skyldi leynast sjómaður. Að sjá til þess að börnin verði sem virkust þegar kemur að munnlegri fræðslu sjómanns, fræðibókum og  vefsíðum. Einnig að kennari reyni að virkja áhuga barnanna og grípa þau námstækifæri sem gefast í ferlinu.

millilína heimasíða.png
bottom of page