top of page

1. Fjársjóðsleit í fjörunni við Hellisbraut

Markmið

  • Að nemendur geti í gegnum myndræn fyrirmæli þekkt og gert þeim helstu hlutum sem finna má í fjörunni skil.

  • Þeir fái tækifæri til þess að þreifa, snerta og uppgötva.

  • Að sá fjársjóður sem nemendur finna haldi áfram að gefa af sér námstækifæri þegar aftur er komið í leikskólann.

 

Viðfangsefni

Fjöruferð í fjöruna við Hellisbraut, í upphafi er nemendum greint frá því að þeir séu á leið í fjársjóðsleit. Hver nemandi fær eggjabakka sem ílát fyrir fjársjóðinn. Á lok eggjabakkans er mynd límd af þeim hlutum sem hver nemandi á að finna (gott er að hafa einhver hólf laus ef eitthvað meira spennandi finnst í fjörunni). Hér er hægt að nálgast myndformið til að líma á eggjabakkalokið. Í fjörunni er mikilvægt að fræðsla eigi sér stað um þá hluti sem nemendur finna. Þegar í leikskólann er komið er hægt að halda áfram með því að skoða fræðslubækur.

 

Leiðir

  • Vettvangsferð í fjöruna þar sem fyrirfram ákveðnir hlutir eru fundnir í fjársjóðsleit.

  • Fræðsla í fjörunni og í leikskólanum (fræðslubækur skoðaðar).

  • Fjársjóðurinn notaður í leikur að læra-stund. Það sem þarf er til að mynda bókstafadúkur og fjársjóðurinn. Hlutirnir settir í skjóðu, nemendur draga einn hlut, einn í einu og segja hvað þeir draga, finna fyrsta hljóð í heiti hlutarins eða jafnvel það síðasta, allt eftir aldri nemenda. Kennari gefur fyrirmæli um ferðamáta að bókstafadúk, til að mynda má hoppa eins og froskur, hoppa á öðrum fæti eða skríða þar til nemandi hefur lagt hlutinn á viðeigandi bókstaf.

  • Hlutirnir geta að sama skapi nýst í Lubba-starfi þar sem áhersla er á tákn og hljóð hlutanna.

 

Hlutverk kennara

Að vekja áhuga og eftirtekt nemenda á leyndardómum fjörunnar og þeim hlutum sem þar er að finna eins og til dæmis, kuðungum, skeljum, steinum, fjörugróðri, kröbbum, ígulkerum og fleiri gullum sem þar leynast. Um leið er mikilvægt að leggja áherslu á og fá fram hugmyndir nemenda hvað gera eigi við hluti eins og rusl sem ekki eigi heima í fjörunni. Að halda áfram að nýta námstækifærin að lokinni vettvangsferð með fræðslu um viðfangsefnin og tengja við aðra grunnþætti menntunar, eins og læsi og sköpun.

20180815_171340.jpg
20190221_134321.jpg
millilína heimasíða.png

2. Leyndardómur fjörunnar

Markmið

  • Að nemendur fái að kynnast fjöru og þeim leyndardómum sem þar er að finna og geti í gegnum eigið hugmyndaflug og sköpun nýtt þann efnivið sem finna má í fjörunni.

 

Viðfangsefni

Að fara í vettvangsferð í fjöru þar sem hægt er að finna fjölbreyttan efnivið, eins og til dæmis skeljar, kuðunga, slípað gler, þara, steina, sand og fleira sem nýst getur til sköpunar.

 

Leiðir

  • Fjöruferð með ílát undir efnivið sem vekur áhuga nemenda og þeir vilja taka með sér aftur heim í leikskólann til frekari sköpunar.

  • Þegar í leikskólann er komið geta nemendur flokkað efniviðinn. Þannig verða til frekari námstækifæri, til dæmis má beina athygli að fjölda, lögun, þyngd, lit og fleiru. Einnig er hægt að fara í leiki, til dæmis með leikur að læra útfærslu þar sem flokkaður efniviður er geymdur á tilteknum stað í smá fjarlægð frá nemendum. Kennari gefur nemendum fyrirmæli um ferðamáta (hoppa, labba, hlaupa, olnbogi – hné eða hvað sem kennara dettur í hug) til að ná í efnivið. Í þessu tilfelli væri gagnlegt að vinna með fjölda og tölustafi, Fyrirmælin fælust þá í því að tilgreina ferðamáta og fjölda hluta úr fjörunni sem á að sækja til að leggja á viðeigandi tölustaf.

  • Frjáls sköpun úr efniviði.

 

Hlutverk kennara

Undirbúa vettvangsferð í fjöruna, hafa til ílát sem hver nemandi getur safnað í og í gegnum ferlið er mikilvægt að styðja við og ýta undir ímyndunarafl og sköpun hvers nemanda. Spyrja ætti opinna spurninga í gegnum ferlið, til dæmis hvað er steinn?, Hvað vitum við um steina?, Hvað er sandur?, Hvaðan koma kuðungar?

20180913_111037.jpg
millilína heimasíða.png
bottom of page