top of page

1. Hreint umhverfi – Glöð náttúra

Markmið

  • Að nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að hugsa vel um náttúruna og þau áhrif sem rusl getur haft sé því hent úti í náttúrunni.

  • Að nemendur læri og átti sig á mikilvægi flokkunar og endurvinnslu.

 

Viðfangsefni

Farið er í vettvangsferð um bæinn með það að markmiði að tína rusl. Með í för eru teknar spjaldtölvur þannig að hægt sé að skrásetja í gegnum myndir hvar ruslið var og hvernig náttúran lítur út þegar búið er að fjarlægja ruslið. Ruslið er svo tekið með í leikskólann þar sem nemendur og kennarar fara í sameiningu í gegnum flokkun á ruslinu og tilganginn með flokkuninni og áhrif þess á framtíðina. Myndirnar úr ferðinni eru prentaðar út og settar upp myndrænt þannig að þær séu sýnilegar nemendum og foreldrum. Gott væri að skipta myndunum í flokka, það er fyrir- og eftir-myndir, þannig skapast umræður um það hversu mikilvægt það er að hugsa vel um náttúruna. Myndræna úrvinnslan verður til þess að það nám og sú þekking sem verður til í gegnum verkefnið helst frekar í sessi.

 

Leiðir

  • Áður en lagt er að stað í vettvangsferð er mikilvægt að búið sé að kynna fyrir nemendum hver tilgangur ferðarinnar sé og hvers vegna mikilvægt er að halda náttúrunni hreinni.

  • Þegar komið er að því að flokka ruslið þarf að fjalla sérstaklega um hvern flokk. Ef um er að ræða pappír má til að mynda ræða hvað hann gæti breyst í við endurvinnslu. Það sama gildir um plast, ál og eða óendurvinnanlegt sorp.

  • Myndræna úrvinnslan gæti gefið tækifæri til þess að hafa víðtækari áhrif út í samfélagið með því til dæmis að skrifa stutta grein í bæjarblaðið, eða fá að hengja veggspjaldið upp í verslun.

 

Hlutverk kennara

Að kynna sér vel ferli endurvinnslu, hægt er að vera tilbúin með kynningarefni, sem má til dæmis finna inni á sorpa.is. Einnig er bókin Verum græn: ferðalag í átt að sjálfbærni (2014) eftir Ásthildi Björg Jónsdóttur, Ellen Gunnarsdóttur og Gunndísi Ýr Finnbogadóttur mjög gagnleg. Síðast en ekki síst að kennarinn sé ávallt fyrirmynd þegar kemur að flokkun og hreinsun náttúru.

millilína heimasíða.png

2. Hellissandur - Bingó

Markmið

  • Að nemendur öðlist tækifæri til þess að verða læsari á eigið bæjarfélag, þekki kennileiti, götuheiti og ritmyndir götuheitanna.

 

Viðfangsefni

Reglulegar vettvangsferðir um eigið bæjarfélag, þar sem tími er gefinn til þess að skoða vel hverja götu í bæjarfélaginu (götuheiti, einkenni og kennileiti). Unnið í gegnum fjölbreytta leiki sem höfða til áhuga nemenda á viðfangsefninu.

 

Leiðir

  • Vettvangsferð um bæinn þar sem götuskilti, einkenni og kennileiti gatna eru skoðuð. Ýtt undir virka umræðu og leitað eftir fyrri reynslu nemenda.

  • Bingóspjöld höfð meðferðis (hér má finna þau), annað hvort hægt að taka spjöld með götuheitum eða myndum af götunum sjálfum. Glærupenni notaður til þess að merkja við þegar götuheiti eða gata finnst.

  • Bingó í leikskólanum (léttari útfærsla), kennari er bingóstjóri og hefur ákveðið fyrir fram að fara í til dæmis götuheitabingó með það að markmiði að efla þekkingu nemanda á ritmyndum götuheitanna. Götuheita-spjöldin prentuð út í tveimur eintökum. Eitt eintakið sem spjöld, hitt klippt niður og sett í skjóðu. Kennari dregur mynd úr skjóðunni til dæmis af götuheitinu Naustabúð (ég dró Naustabúð, hver er með Naustabúð?). Mikilvægt er að kennari leggi áherslu á fyrsta hljóðið og noti um leið hljóðtákn Lubba (Lubbi finnur málbein). Bingóreglur geta verið mismunandi, til þess að nemandi fái bingó gæti hann þurft að fá þrjár myndir í röð eða að fylla allt spjaldið sitt.

  • Bingó í leikskólanum (erfiðari útfærsla), kennari er bingóstjóri og velur að láta nemendur annað hvort hafa spjöldin með myndunum af götunum eða götuheitunum. Þær myndir sem kennari hefur hjá sér eru klipptar niður og settar í skjóðu. Á spjöldunum eru sex myndir og geta bingóreglurnar verið eftir höfði hvers kennara, til dæmis þrjár myndir í röð til að fá bingó eða allt spjaldið til að fá bingó. Kennari dregur mynd, til dæmis af götuheitinu Hellisbraut (Hver er með götuna Hellisbraut?), nemendur skoða spjöldin sín vel og leita að mynd af götu sem passar við götuheitið. Í bingóinu er mikilvægt að leggja áherslu á framsögn nemenda þegar spjald er fengið (nemandi: Ég er með mynd af Hellisbraut!).

  • Í leikur-að-læra-stund er hægt að nýta bingóið á sama máta, bæði má finna eins myndir og finna myndir sem passa saman. Gott er að nýta húlahringi, hver nemandi á sinn hring og er þar með spjaldið sitt. Á móti nemendum í smá fjarlægð eru myndirnar sem passa við spjöldin sett. Nemendur fá fyrirmæli um ferðamáta, til dæmis bangsagang, gang á tám, hopp eða hliðar saman hliðar og ná í eina mynd í einu og fara með í hringinn sinn og leggja á réttan stað á bingóspjaldinu.

  • Götuheitin má einnig nýta í þrautabraut með leikur að læra-aðferð þar sem stöðvarnar hafa verið skírðar eftir götuheitunum, þannig festast ritmyndir þeirra enn frekar í minni. Á einni stöðinni mætti hafa götuheitin á litlum miðum sem nemendur geta dregið og æft sig svo í að skrifa götuheitin sjálf.

  • Götuheiti vikunnar er hægt að vinna með á fjölbreyttan hátt. Hægt er að vera með mynd af viðkomandi götuskilti og fara í gönguferð að finna hvar það götuskilti er að finna. Í þessum leik má efla leiðtogahæfileika nemanda með því að kennari bjóði einum eða tveimur nemendum að leiða hópinn í göngunni, muna að gefa öllum tækifæri til þess að vera leiðtogar. Teikna upp eða mála einkenni götunnar, það er þau hús sem finna má við götuna: Hvað eru mörg hús við götuna?, Hvað er þessi gata mörg risa skref?, Hvað ætli við þyrftum marga liggjandi nemendur til þess að samsvara lengd götunnar? Unnið með kort af bæjarfélaginu, hvar er þessa götu að finna? Til viðbótar gæti verið skemmtilegt að nota verkefnablaðið Húsið mitt en það má finna hér.

 

Hlutverk kennara

Að vekja eftirtekt og áhuga nemenda á götuheitum, einkennum og kennileitum hverrar götu í bæjarfélaginu. Að út frá áhuga nemenda geti námstækifærin verið sett fram á fjölbreyttan hátt og leitt af sér skemmtilegt og fræðandi ferli.

Hellissandur_götur_myndir.png
Hellissandur_götuheiti_mynd.png
millilína heimasíða.png

3. Söguteningar

Markmið

  • Að nemendur öðlist færni í setningamyndun og frásögn í gegnum þær myndir sem fram koma á söguteningunum.

  • Að orð sem tengjast nánasta umhverfi og kennileitum verði nemendum auðveldari í notkun og verði hluti af grunnorðaforða nemenda.

  • Að nemendur verði meðvitaðari og búi yfir þekkingu um eigið umhverfi.

 

Viðfangsefni

Söguteningar notaðir sem grundvöllur sögugerðar, hægt að nota þrjá teninga í einu. Þeir þrír sem hér eru settir fram eru: Bæjarfélagið, dýr og persónur. Prentanlegu teningana má finna hér: Persónur, Dýr, Vettvangur.

 

Leiðir

  • Í samverustund fær hver nemandi að kasta teningunum þremur og segir hinum sögu út frá þeim myndum sem hann fær. Gaman er ef hægt er að taka söguna upp þannig að kennari geti síðar skrifað hana niður og lesið hana fyrir nemandur eða leyft þeim að hlusta á hljóðupptökuna.
     

  • Í hópastarfi, þar sem unnið er með snjallforritið Book Creator.            Saga búin til út frá söguteningunum þremur, getur bæði verið einstaklings- eða hópaverkefni. Í snjallforritnu er hægt að fara fjölbreyttar leiðir við úrvinnslu, til dæmis er hægt að skrifa inn texta, setja inn myndir, myndbönd eða hljóð. Hægt er að skoða bókina aftur og aftur, hlusta á hana í iBooks ef unnið hefur verið með texta og deila henni á auðveldan hátt með foreldrum í gegnum vefsíðu eða með vefpósti.

  • Söguteningana má einnig nota í hvern í sínu lagi, til dæmis til þess að ákveða hvaða vettvang skuli heimsækja eða fjalla um, eða hvaða dýr eigi að skoða eða fjalla um.

Hlutverk kennara

Að skrá niður frásögn nemenda og vinna áfram með þá frásögn í gegnum virkar samræður og reynslu nemenda, þannig að auðga megi og dýpka orðaforða hvers nemanda sem leiðir af sér frekari frásagnarfærni.

Book creator.jpg
söguteningur_3.jpg
söguteningur_2.jpg
söguteningar.jpg
millilína heimasíða.png
bottom of page