top of page

1. Fuglaskoðarinn

Markmið

  • Að nemendur geti í gegnum eigin upplifun skoðað fjölbreytt fuglalíf og kynnst að minnsta kosti einni fuglategund vel.

 

Viðfangsefni

Nemendur vinna að undirbúningi fyrir ferðina, búa til sinn eigin sjónauka úr tveimur klósettrúllum og skoða ásamt kennara bækur um fugla. Vettvangsferð farin á Rif að skoða fjölbreytt fuglalíf við ósinn og fuglaskoðunarhúsið, þar má einnig finna upplýsingar um þær fuglategundir sem finna má í Rifi.

 

Leiðir

  • Umræður og undirbúningur í leikskólanum fyrir vettvangsferð, bækur um fugla skoðaðar og jafnvel farið í fuglahljóðabingó. Nemendur setja sig í spor fuglaskoðara og búa til sinn eigin sjónauka úr tveimur klósettrúllum. Hver nemandi skreytir sinn sjónauka eftir sínu höfði, rúllurnar tvær eru límdar saman og band fest í þær svo hægt sé að hafa sjónaukann um hálsinn.

  • Besta er að fara í vettvangsferðina að vori eða sumri. Kennari sýnir nemendum hvaða fuglategundir líklegast að þeir muni sjá, eins og til að mynda kríur, endur, máva, æðarfugla, lóur og skógarþresti. Áður en farið er á vettvang er nauðsynlegt að fara yfir reglur á vettvangi. Hópurinn verður að halda hópinn og gera verður nemendum grein fyrir hættunni á þjóðveginum sem er nálægt skoðunarsvæðinu.

  • Meðferðis er gott að hafa myndavél, bækur um fugla, einn alvöru sjónauka, blöð, skriffæri og ílát undir rusl.

  • Hægt er að grípa í leikur að læra-aðferð í vettvangsferðinni með því að kennari sé til dæmis búin að gefa þau fyrirmæli að ef nemandi sjái kríu eigi hann að hoppa, ef hann sjái önd eigi hann að skríða, ef hann sjái æðarfugl eigi hann að klappa, ef hann sjái skógarþröst eigi hann að hoppa sprellikarlahopp og svo framvegis. Smá viðbætur líkt og leikur að læra-aðferðin í ferðinni geta gert hana meira spennandi og ýtt undir eftirtekt nemendanna. Einnig er hægt að nota fuglana (myndir eða heiti þeirra) í húsaleik með leikur að læra-aðferð heima í leikskólanum þegar unnið er áfram með fuglana. Húlahringjum er þá dreift um gólfið og í hringina látnar myndirnar af fuglunum eða heiti þeirra. Kennari gerir æfingar með nemendum í röð, biður alla um að frjósa og gefur fyrirmæli um hvaða hring þau ætli að heimsækja næst. Við hringinn er farið dýpra í hvern fugl eftir því sem kennari hefur ákveðið, til dæmis minnt á heiti fuglsins, kallað eftir fyrsta hljóði í heitinu, heiti hans hljóðað, stafir í nafni taldir, litur fuglsins ræddur og allt það sem kennara dettur í hug að mikilvægt væri að leggja áherslu á eða skoða. Þessu er haldið áfram þangað til búið er að heimsækja alla fuglanna.

  • Taka má fyrir fugl mánaðarins eftir áhuga nemenda og vinna á fjölbreyttan hátt með fuglinn og kynnast honum vel.

 

Hlutverk kennara

Að kynna sér vel þær fuglategundir sem finna má á Rifi, vera þátttakandi í fuglaskoðuninni og sýna áhuga og gleði í gegnum ferlið. Vinna á fjölbreyttan hátt með valda fuglategund og samþætta vinnuna við aðra áhersluþætti eins og til dæmis leikur að læra-aðferð og Lubbi finnur málbein. Að hlusta á hugmyndir nemendanna og finna leiðir ásamt þeim til þess að framkvæma þær.

millilína heimasíða.png

2. Lífið í ósnum

Markmið

  • Að nemendur kynnist ósnum á Rifi og fái tækifæri til þess að veiða og skoða hornsíli.

 

Viðfangsefni

Vettvangsferð á Rif að veiða hornsíli í ósnum.

 

Leiðir

  • Áður en farið er í vettvangsferðina er tilgangur hennar útskýrður og gott er að lesa söguna um Halla hornsíli. Í henni er að finna fróðleik um hornsíli og skemmtilegar tilraunir sem hægt er að framkvæma með nemendum.

  • Í vettvangsferðina þarf að taka með háfa, fötur, myndavél og ílát undir rusl.

  • Námstækifærin gripinn á staðnum, talað um stærð sílanna, útlit þeirra, hornin á bakinu og lit. Jafnvel mætti reyna að mæla lengd sílanna.

  • Hér má finna fróðleik um hornsíli af vef.

 

Hlutverk kennara

Að vera virkur í vettvangsferðinni og vita það sen þarf til að spurningum sem upp gætu komið um ósinn eða sílin.

millilína heimasíða.png
bottom of page