top of page

1. Snæfellsjökull: Hversu hár?

Markmið

  • Að nemendur geti tengt hæð Snæfellsjökuls við hæð annarra hluta í umhverfi þeirra og þannig gert sér frekari grein fyrir raunverulegri hæð hans.

 

Viðfangsefni

Snæfellsjökull og hæð hans rædd og reynt að finna ákjósanlega mælieiningu til þess að nemendur öðlist skilning á hæð Snæfellsjökuls sem er 1.446 metrar á hæð. Fjölbreytt verkefni unnin til þess að ná markmiði.

 

Leiðir

  • Kennari og nemendur skoða umhverfi sitt og finna ákjósanlegan hlut sem hægt er að nota sem mælieiningu. Til dæmis væri hægt að nota fánastöng sem áætla mætti að væri um 8 metrar á hæð, þá þyrfti um 180 fánastengur til þess að toppa Snæfellsjökul. Einhverjir nemendanna þekkja Gufuskálamastrið sem er 412 metrar og gæti það jafnvel nýst sem mælieining. Finna mætti fleiri einingar í samráði við nemendur og reikna í reiknivél hversu margar einingar þarf til þess ná upp á jökul, reiknivél og stórar tölur vekja oftast áhuga og undrun nemenda.

  • Skemmtilegt er að vinna úr verkefninu á myndrænan hátt, teikna eða líma mynd af Snæfellsjökli á veggspjald og við hlið myndarinnar raða upp táknrænt hlutum sem endurspegla valdar mælieiningar eða mynd af mælieiningunni og skrá niður fjöldann.

 

Hlutverk kennara

Að dýpka þekkingu nemenda á Snæfellsjökli og rýna með þeim í stærð hans. Að vinna að fjölbreyttri útfærslu á úrvinnslu í samvinnu við nemendur.

millilína heimasíða.png

2. Snæfellsjökull: Virk eldstöð

Markmið

  • Að nemendur á elsta aldursári í leikskólanum geti aukið við þekkingu sína á Snæfellsjökli og fræðst um hann sem virka eldstöð.

 

Viðfangsefni

Fræðst um Snæfellsjökul og heimsókn á gestastofu þjóðgarðsins á Malarrifi (nemendur leikskólans hafa á hverju árið farið í útskriftarferð þar sem farið er í rútuferð í kringum jökulinn og meðal annars komið við á Malarrifi).

 

Leiðir

  • Í gestastofu þjóðgarðsins er að finna líkan af Snæfellsjökli þar sem bæði er hægt að skoða hann að utan og innan.

  • Í leikskólanum er rýnt í þversniðsmynd af Snæfellsjökli og rætt um efni hennar.

  • Tilraun með eldgos, hér má finna leiðbeiningar.

 

Hlutverk kennara

Að skipuleggja ferð á Malarrif og búa yfir þekkingu til að svara spurningum. Þannig má mæta fróðleiksþörf nemenda.

þversnið af Snæfellsjökli.png

Heimild, mynd,

Bjarni Freyr Kristjánsson og Margrét Valdimarsdóttir. (2010). Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull: Jarðfræði, viðauki IV með verndaráætlun. Sótt af: https://ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Fridlyst-svaedi/Snaefellsjokull/vi%C3%B0auki%20lV_Jar%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i.pdf

millilína heimasíða.png
bottom of page