top of page

1. Að þekkja bæinn sinn

Markmið

  • Að nemandi geti skilgreint í hvaða bæjarhluta hann á heima – Hellissandur, Rif.

  • Að hann átti sig í gegnum vettvangsferðir og umræður á eigin heimilisfangi og megineinkennum sinnar götu.

  • Að í gegnum reynslu nemanda verði til önnur þekking, til dæmis hugtakaþekking (stórt hús, lítið hús, fyrir aftan, fyrir framan, uppi, niðri), litaþekking, formþekking, tölustafaþekking og bókstafa- og hljóðaþekking: Númer hvað er húsið mitt?, Hvert er fremsta hljóðið eða stafurinn í götuheitinu mínu?

 

Viðfangsefni

Reglulegar vettvangsferðir með kort, götuheiti skoðuð og rædd ásamt öðrum einkennum húsa. Gott er að hafa myndavél með í för, þannig að hver nemandi geti tekið mynd af sínu húsi eða öðru sem þótti áhugavert, eins og til að mynda, formum, götuheitum eða öðru sem á vegi nemandi getur orðið. Ferli og vinnsla getur verið mjög fjölbreytt og getur áhugi nemandi haft áhrif þar á. Áframhaldandi vinna í leikskóla getur falið í sér sköpun á mínu húsi, gaman getur verið að búa til stórt bæjarkort hengja á vegg og í kring myndir af öllum nemendunum. Í myndirnar er festur bandspotti sem pinnaður er í hús viðkomandi nemanda. Athuga hvort að samnemendur eigi heima í sömu götu, stutt hver frá öðrum eða langt hver frá öðrum.

 

Leiðir

  • Vettvangsferðir með kort, myndavél, blað og blýant.

  • Úrvinnsla og áframhaldandi ferli í leikskóla, götuheiti og einkenni og útlit húsa rædd og nýtt sem grundvöllur náms. Þannig er ýtt undir hljóða- og stafaþekkingu, stærðfræði og almenna málörvun.

 

Hlutverk kennara

Að vera kunnugur svæðinu og þekkja hvar hver nemandi býr, kennari þarf að geta nýtt námstækifærin sem gefast í gegnum vettvangsferðina og vera meðvitaður um að grípa þann áhuga sem nemendur sýna. Ef númer húsanna vekja mestan áhuga, hvernig væri þá hægt að vinna það frekar? Væri til dæmis hægt að sýna áþreifanlega fram á fjöldann og leggja inn hugtökin fleiri og færri? Eins þarf, ef form, heiti, hljóð eða stafir vekja mestan áhuga, að finna leiðir til þess að grípa þann áhuga og þannig búa til lærdómsferli þar sem nemendur og kennarar læra og uppgötva saman.

Hellissandur kort.png
millilína heimasíða.png

2. Kubbakrókurinn verður að eigin bæjarfélagi

Markmið

  • Að festa í sessi hugtök og heiti innan bæjarfélagsins í gegnum sjálfsprottinn leik nemanda. Sjónminni eflist og í gegnum virkar umræður, bæði á milli nemenda og milli kennara og nemenda, verður til aukin þekking á eigin nærumhverfi.

 

Viðfangsefni

Teknar eru myndir af fjölbreyttum þáttum í bæjarfélaginu, í þessu tilfelli væri gagnlegt að hafa myndir af Snæfellsjökli, útilistaverkunum Beðið í von og Skipið, sjóminjasafninu, leikskólanum, grunnskólanum, Berurjóðri (húsarústum á Drimbum), heimilum nemenda. Myndirnar eru prentaðar út á ljósmyndapappír og límdar á trékubba með límbandi sem hefur lím báðum megin. Gott er að bæta við ritmáli á myndirnar þannig að nemendur geti lagt ritmyndir orða á minnið. Einnig er tilvalið að leyfa nemendum sjálfum að taka sínar eigin myndir í vettvangsferðum og líma á kubba.

 

Leiðir

  • Leikur á forsendum nemenda með kennara sem þátttakanda með það að markmiði að auðga leik og umræður sem skapast.

  • Draga á kubb með mynd og fara í vettvangsferð á þann stað.

  • Í leikur að læra-stund – sem verkefni til þess að æfa sig að skrifa þær ritmyndir sem finna má á kubbunum, finna fyrsta hljóð þess fyrirbæris sem mynd er af.

 

Hlutverk kennara

Að stuðla að virkum umræðum og vera virkur í leik nemenda, jafnframt að ýta undir forvitni og uppgötvun í leik og starfi með kubbana. Í gegnum samvinnu barnanna eflist bæði málþroski þeirra og félagsfærni.

50170646_548721065538389_909359908031509
millilína heimasíða.png
bottom of page