top of page

1. Tiltekt í Krossavíkurfjöru

Markmið

  • Að nemendur átti sig á mikilvægi þess að óhrein fjara getur haft áhrif á það dýralíf sem finna má í fjöru og í sjó.

  • Í gegnum ferlið læri nemendur einnig mikilvægi þess að flokka sorp og að niðurbrot efna í jarðvegi getur oft tekið langan tíma.

 

Viðfangsefni

Vettvangsferð í Krossavíkurfjöru, tiltekt, flokkun sorps, endurvinnsla sorps og umræður um niðurbrot efna í jarðveginum.

 

Leiðir

  • Tiltekt, hver nemandi tínir rusl sem hann sér í fjörunni og lætur í ílát eða taupoka.

  • Sorpið sett saman í hrúgu annað hvort í fjörunni eða í leikskólanum það sem allir hjálpast að við það að flokka það í plast, pappír, ál, lífrænt og almennt sorp. Hér er hægt að vinna með leikur að læra-aðferð, kennari gefur fyrirmæli um ferðamáta, segir börnunum að þau eigi að hoppa, ganga, ganga kóngulóargang, valhoppa, og gefur fyrirmæli um hvaða sorp eigi flokka á réttan stað, til dæmis plast sem er þá sett í plasthrúguna.

  • Tilraun með niðurbrot sorps í leikskólanum, þrjú glær ílát fyllt af mold, í eitt ílátið er til dæmis hægt að láta bananahýði, í annað álpappír og það þriðja plast. Nemendur og kennarar fylgjast með og skrá hjá sér hvað gerist.

  • Ferðin skráð með myndum sem hengdar eru upp í leikskólanum til þess að vekja frekari umræður nemenda og til þess að vekja foreldra og annað starfsfólk til umhugsunar um mikilvægi flokkunar á sorpi.

  • Fróðlegt er að horfa á myndbönd um flokkun, flokkun mjólkurferna, endurvinnslu á dagblöðum, endurvinnslu á bylgjupappa, Trjáálfarnir læra að flokka og skila plastumbúðum..

 

Hlutverk kennara

Að geta svarað spurningum um mikilvægi hreins umhverfis, flokkunar og endurvinnslu. Að leggja fyrir nemendur tilraunir sem sýna fram á mikilvægi endurvinnslu.

20180815_172337.jpg
54394335_692938284435284_992601525182267
millilína heimasíða.png

2. Sagan um Keflavíkurfjöru

Markmið

  • Að nemendur kynnist sögu fyrri tíma þegar Keflavík var ein þekktasta verstöð á Íslandi og þangað réru til og frá fjöldi áraskipa.

  • Að nemendur geti í gegnum frásagnir kennara áttað sig á muninum á nýjum og gömlum tíma.

 

Viðfangsefni

Vettvangsferð í Keflavíkurfjöru, gengið um svæðið fyrir framan fjöruna, skiltið skoðað og vöngum velt yfir fyrri tímum og mikilvægi fjörunnar á þeim tímum þegar í fjörunni lentu árabátar.

 

Leiðir

  • Áður en farið er í vettvangsferð má fara í umræður í leikskólanum, þar sem farið er yfir umhverfi fjörunnar og þær hættur sem þar geta leynst vegna þess hve fjaran er stórgrýtt.

  • Rifja má upp og skoða myndir úr fyrri vettvangsferð þegar farið var í heimsókn í Sjóminjasafnið og áttærangarnir Bliki og Ólafur Skagfjörð skoðaðir.

  • Siglingaleikur á svæðinu fyrir framan fjöruna. Kennari prentar út stórar myndir af árabát og skipi nútímans og leggur á grasið (bryggja). Um borð í árabátinn komast ekki fleiri en átta. Um borð í skip nútímans komast mun fleiri. Í leiknum er lögð áhersla á gamalt/nýtt, erfitt/létt, hægt/hratt. Nemendum skipt í tvö lið og annað þeirra tekur sér stöðu hjá myndinni af árabátnum og hitt hjá skipi nútímans. Spölkorn á móti byrjunarreit hefur kennari komið fyrir afla (getur verið hvað sem er, til dæmis steinar í poka) sem liðin þurfa að ná í og koma aftur að bryggju. Liðið á árabátnum fær fyrirmæli um að ganga hænuskref (líkamsafl) að aflanum en liðið á skipi nútímans fær fyrirmæli um að hlaupa (vélarafl) að aflanum. Liðin þurfa að vinna saman við að koma aflanum aftur í land (til þess að leggja áherslu á hugtökin létt og erfitt mætti þyngja aðeins aflann hjá árabátsliðinu). Einnig er hægt að útfæra leikinn á fleiri vegu, til dæmis gefa fyrirmæli um það hverjir megi sigla, það er hreyfa sig áfram í leiknum (kennari getur notað orðin árabátur, skip og allir), þannig að ef kennari gefur fyrirmælin Allir! í byrjun fara allir af stað, ef næstu fyrirmæli eru Árabátur! stoppar skipið á meðan. Svona gengur þetta koll af kolli þangað til annað liðið kemur aftur að bryggju. Þetta skapar spennu og þurfa liðin ávallt að vera tilbúin þegar kennari kallar fyrirmælin. Tilgangur leiksins er að nemendur átti sig á muninum sem er á okkar tímum og fyrr tímum. Mikilvægt er að bæði liðin fái að prófa bæði árabát og skip nútímans.

  • Umhverfisvernd – ílát undir rusl haft meðferðis ef nemendur skyldu finna rusl.

  • Taka þarf  ljósmyndir þannig að frekari umræður geti átt sér stað í seinna í leikskólanum.

  • Skráning vettvangsferðar þegar heim er komið í leikskólann. Hér má finna skráningarblaðið.

 

Hlutverk kennara

Að kynna sér vel sögu og umhverfi Keflavíkurfjöru, undirbúa leik og punkta til þess að virkja umræður. Nýta hvert námstækifæri sem gefst, til dæmis mætti fara lengra með aflann, ef notaðir eru steinar væri hægt að telja þá saman og jafnvel flokka þá í litla og stóra steina.

millilína heimasíða.png
bottom of page