top of page

1. Að kynnast skógarlundinum Tröð

Markmið

  • Að nemendur átti sig á umhverfinu í skógarlundinum Tröð (Lundur, Flatirnar, gönguhringur, Börðin, Kleinuklettur, Margrétarlundur) og fái að kynnast skógarlundinum á mismunandi árstíðum.

  • Að börnin læri umgengisreglur í skóginum: 1. Við sýnum plöntum og trjám virðingu, 2. Við pössum upp á að allt rusl fari í viðeigandi ílát, 3. Í frjálsum leik förum við ekki út fyrir afmarkað svæði skógarlundarins.

 

Viðfangsefni

Að nýta umhverfi skógarins sem tækifæri til náms og leikja, lögð er áhersla á upplifun nemenda í gegnum skynfæri þeirra og að tengsl myndist á milli nemanda og náttúru.

 

Leiðir

  • Frjáls leikur barnanna í skógarlundinum.

  • Kennarastýrð gönguferð um skógarlundinn.

 

Hlutverk kennara

Er að þekkja vel til í Tröð og geta í gegnum lifandi og áhugaverða frásögn vakið áhuga nemanda á umhverfinu og því sem þar er að finna.

Kort Tröð.png
millilína heimasíða.png

2. Að safna laufblöðum og flokka eftir lit

Markmið

  • Að nemendur átti sig á litabreytingunum sem verða að hausti. Þeir þjálfist í að flokka eftir litum

Viðfangsefni

Vettvangsferð í Tröð þar sem markmiðið er að safna laufblöðum og ræða saman um liti laufblaðanna og ástæður þess að laufblöð breyta um lit þegar tekur að hausta. Unnið er með flokkun laufblaðanna og farið í umræður út frá því. Í lokin er til dæmis hægt að taka saman hversu mörg laufblöð hver nemandi fann af hverjum lit og skrá niður.

Leiðir

  • Söfnun laufblaða getur átt sér stað í vettvangsferð og úrvinnsla í leikskóla, þar væri gaman og gagnlegt að búa til stórt veggspjald og flokka og líma laufblöðin á veggspjaldið í sameiningu.

  • Að vera úti í náttúrunni að safna laufblöðum og flokka eftir lit, hægt að prenta út verkefnablaðið Flokkum laufblöð sem má finna hér og leyfa hverjum nemanda að safna og flokka á sínu spjaldi. Í lokin má fara í hringumræður um haustlitina, stærð laufblaða, fjölda af hverjum lit og svo framvegis.

  • Leikur að læra-stund í Tröð, stóru spjöldin með haustlaufblöðunum prentuð út en þau má finna hér. Nemendur byrja á því að safna saman laufblöðum og færa þau á fyrirfram ákveðin stað. Þegar nóg er komið að laufblöðum raðar kennarinn laufblaðaspjöldunum í röð svolítið frá laufblaðasafnhrúgunni. Hann gefur nemendum fyrirmæli um að draga eitt lauf úr safnhrúgunni og ferðast með laufblaðið með fyrirfram ákveðnum ferðamáta, til dæmis froskahoppi, að viðeigandi spjaldi.

 

Hlutverk kennara

Að afla sér upplýsinga um ástæður litabreytinga sem verða á plöntum og trjám þegar tekur að hausta. Að vekja athygli barnanna á mismunandi litum laufblaða og nýta hvert tækifæri til þess að koma að öðrum námsmarkmiðum, beina til dæmis athygli að fjölda, lögun, stærð, afstöðuhugtökum og fleiru.

millilína heimasíða.png

3. Að gróðursetja tré í skógarlundinum Tröð

Markmið

  • Að nemendur geti í gegnum sitt „eigið“ tré kynnst umhirðu trjáa í gegnum leikskólagönguna ásamt því að kynnast skógarlundinum Tröð betur.

 

Viðfangsefni

Gróðursetning á tré í samstarfi við skógræktarfélagið undir jökli. Tré gróðursett sem ætlunin er að fylgjast með og hugsa um í gegnum leikskólagönguna og jafnvel upp í grunnskóla. Nemendur fylgjast með trénu stækka, við lok leikskólagöngu er hægt að líta táknrænt á tréð sem myndlíkingu þroska og vöxt nemenda.

 

Leiðir

  • Samstarfi komið á við Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli og leyfi fengið fyrir því að á hverju ári fái hópur nemenda á yngstu deild leikskólans að gróðursetja tré í skógarlundinum sem þeir hugsi um og fylgist með í gegnum leikskólagöngu sína.

  • Trénu gefið nafn sem nemendur ákveða í sameiningu.

  • Reglulegar skráningar og myndir teknar af trénu við hverja árstíð. Hversu stórt var tréð í byrjun?, Hversu mikið hefur það stækkað á milli heimsókna? Hvernig lítur það út á milli árstíða?, Hversu stórt er það í lokin? Gott er að hafa með sér skráningarbók sem fylgir nemendum í gegnum leikskólagönguna.

 

Hlutverk kennara

Að koma á samstarfi við skógræktarfélagið, persónugera tré nemendanna þannig að það verði eitt af vinum nemenda í leikskólanum. Kenna nemendum að umgangast tré af virðingu og fræða þá um mikilvægt hlutverk trjáa fyrir líf á jörðu. Einnig að kennari nýti hvert námstækifæri sem gefst í heimsóknum í skóginn og í gegnum skráningarbók. Til dæmis að nemendur hafi tækifæri til þess að skoða bókina þegar vilji er fyrir því og að í hana séu reglulega settar myndir sem gefa færi á því að rifja upp og þannig ýta undir frásagnarhæfni nemenda.

millilína heimasíða.png
bottom of page