top of page

1. Beðið í von - sagan mín

Markmið

  • Að nemendur kynnist og skoði listaverkið Beðið í von sem finna má við götuna Hellisbraut á Hellissandi.

  • Að þeir geti í gegnum upplifun sína búið til sína eigin frásögn út frá þýðingu verksins.

 

Viðfangsefni

Vettvangsferð til að skoða listaverkið Beðið í von eftir Grím Marínó Steindórsson, hugmyndir og upplifun nemendanna fengnar fram og þýðing verksins rædd. Vinnu í leikskólanum haldið áfram í gegnum sögugerð og sköpun.

 

Leiðir

  • Listaverkið Beðið í von skoðað og túlkun og þýðing þess ígrunduð vel með nemendum, kennari leggur helst fram opnar spurningar. Dæmi um spurningar: Hvað sjáið þið í þessu listaverki?, Hvað haldið þið að heiti listaverksins Beðið í von merki?, Hafið þið einhvern tímann beðið í von?, Hvað sjáið þið margar persónur í listaverkinu?, Hvernig haldið þið að konunum í listaverkinu líði?, En börnunum, hvað ætli þau séu að hugsa?

  • Upplifun nemenda í gegnum sjón og snertingu, gott er að hafa með spjaldtölvu þannig að nemendur geti tekið eigin ljósmyndir og blöð og skriffæri þannig að hver nemandi hafi tækifæri til þess að skrá myndrænt eða rita niður það sem vekur áhuga, eins og til dæmis heiti listaverksins og nafn höfundar sem fram kemur við listaverkið.

  • Í leikskólanum er unnið með sögugerð þar sem nemendur skrá sína eigin sögu og túlkun á listaverkinu Beðið í von. Mikilvægt er að fá fram hugmyndir nemenda um úrvinnslu sögunnar, það er hvernig þeir vilja setja hana fram. Möguleikarnir eru margir, til dæmis er hægt að segja söguna myndrænt, fá kennara til að skrifa söguna niður, taka söguna upp með raddupptöku í síma eða spjaldtölvu, nota snjallforritið Book Creator eða búa til leikrit.

 

Hlutverk kennara

Að fá fram hugmyndir nemenda um listaverkið Beðið í von og í gegnum þær reyna að dýpka skilning þeirra á þýðingu listaverksins og þeim tilfinningum sem falist geta í heiti verksins.

20180815_171936.jpg
millilína heimasíða.png
bottom of page