top of page

1. Að lita áferð trjábols

Markmið

  • Að fá fram áferð trjábarkar á blað. Í gegnum verkefnið eiga nemendur að fræðast um trjábörk og umgengni við tré.

  • Að nemendur viti að tré eru lifandi og koma á fram við þau af virðingu, til dæmis má alls ekki brjóta trjábörk.

  • Þeir viti að tré gegna mikilvægu hlutverki, veita okkur skjól og búa til súrefni.

Viðfangsefni

Unnið með tré og fræðst um þau í gegnum auðvelt verkefni. Upplifun í gegnum skynfærin sjón, heyrn, lykt og snertingu. Þegar fræðsla er að baki er farið í vettvangsferð og tré skoðað á fjölbreyttan hátt. Til þess að festa enn betur í minni það nám sem þarna fer fram fá nemendur það verkefni að lita áferð trjábarkar á blað og eru þannig komnir með áþreifanlegan hlut sem auðveldar þeim að muna það sem átti sér stað.

Leiðir

  • Áður en farið er í vettvangsferðina er mikilvægt að vera búin að kynna efnið fyrir nemendunum og afla upplýsinga með þeim. Til dæmis er hægt að skoða bókina Tré þar sem fjallað er tré og áhrif árstíðanna á það og veita þannig nemendum frekari skilning á þeirri hringrás sem á sér stað. Einnig er hægt að nýta aðra bók með sama nafni eftir Jón Guðmundsson en hún er gefin út af Námsgagnastofnun og er ætluð börnum aldrinum 8–11 ára. Einfalda má þær útskýringar sem þar er að finna. Einnig væri gaman að vera með þverskurð af trjábol til þess að útskýra aldur trjáa.

  • Þegar komið er í skógarlundinn er aftur farið yfir reglur og þá áhersluþætti sem farið var yfir áður. Verkefnið e útskýrt vel og allir byrja á því að snerta, þreifa og lykta af trjáberki. Að lokum fá nemendur að lita áferð trjábarkar á blað og taka með sér heim. Þannig gefast fleiri tækifæri til ígrundunar og umræðu þegar í leikskólann er komið. Hvernig væri til dæmis að búa til tré í leikskólanum? Væri hægt að útbúa þar lítið eða stórt tré?

 

Hlutverk kennara

Að hjálpa nemendum að afla upplýsinga um tré, stuðla að virkum umræðum og fá fram hugmyndir. Kennari hefur meðferðis í vettvangsferðina stór blöð fyrir alla nemendur, tape-límrúllu og liti.

millilína heimasíða.png

2. Skordýraleit í skóginum

 

Markmið

  • Að nemendur geti skoðað og kynnst skordýrum út í náttúrunni.

  • Að þeir geti út frá skoðun og áhuga valið og unnið nánar með eitt skordýr í leikskólanum.

 

Viðfangsefni

Vettvangsferð í skógarlundinn Tröð og athugað hvort að hægt sé að finna skordýr sem gaman og spennandi er að skoða. Meðferðis eru höfð stækkunargler, ílát með stækkunargleri til þess að skoða dýrin nánar og bók um skorýr sem hægt er að skoða og jafnvel greina skordýrin. Dæmi um bók sem nemendur hafa gaman af því að skoða er bókin Dulin veröld, smádýr á Íslandi eftir Guðmund Halldórsson, Odd Sigurðsson og Erling Ólafsson.

 

Leiðir

  • Áður en farið er í vettvangsferð er mikilvægt að kennari sé búin að kynna fyrir nemendum viðfangsefnið og skoða í bókum og á vef myndir af skordýrum sem hægt er að finna á Íslandi.

  • Á vettvangi fær hver nemandi sitt stækkunargler og ílát til þess að geyma skordýr sem finnast þannig að nánari athugun geti átt sér stað með kennara og öðrum nemendum.

  • Muna þarf eftir myndavél þannig að hægt sé að skrá ferli og nýta myndirnar til þess að rifja upp seinna.

  • Þegar allir hafa fundið eitthvað af skordýrum er gagnlegt að sitja saman og hver og einn nemandi segi frá því sem hann fann og lýsi einkennum skordýrsins (Hvernig er það á litinn?, Hvað hefur það marga fætur? Er það með vængi? Er það með fálmara? Er vitað hvaða skordýr þetta er?, Hvernig er það viðkomu?).

  • Þegar í leikskólann er komið ákveður nemendahópurinn ásamt kennara hvaða skordýr þeim fannst áhugaverðast í þetta skiptið og unnið er sérstaklega með það dýr. Til dæmis, ef valið er að fræðast nánar um maríubjöllu, þarf að leita að upplýsingum um hana, útlit hennar, tilgang og nýta um leið tækifærin til þess að efla talnaþekkingu og litaþekkingu (Hvað hefur hún margar fætur?, Hefur hún fálmara og ef svo er, hversu marga?, Hvernig er hún á litinn?).

  • Vinna má á fjölbreyttan hátt með valið skordýr í gegnum sköpun, til dæmis búa til dýrið úr pappamassa, mála myndir af því, teikna það, búa til sögu um það.

 

Hlutverk kennara

Að undirbúa vettvangsferðina vel í samvinnu við nemendur, finna til stækkunargler, ílát (með stækkunargleri ef það er til) og áhugaverðar bækur um skordýr. Gæta þess að halda ferli áfram eins lengi og hægt er og fer það eftir bæði áhuga nemenda og þátttöku kennara í ferlinu.

54522966_386552462125846_732417899224262
millilína heimasíða.png

3. Smáfuglarnir og veturinn

Markmið

  • Að nemendur geti rétt smáfuglum hjálparhönd þegar á reynir og geri sér grein fyrir mikilvægi þeirrar aðstoðar sem þeir leggja fram.

  • Að þeir átti sig á því að þegar vetur er harður reynist smáfuglunum erfitt að finna æti en það er þeim nauðsynlegt til þess að öðlast orku og þannig halda á sér hita yfir kaldasta tímann.

Viðfangsefni

Þegar hart er í ári og allt snævi þakið er gott að geta rétt smáfuglum hjálparhönd og fært þeim fuglafóður. Í þessu verkefni fá börnin öll einn til tvo köngla eða klósettrúllur sem þau smyrja með hnetusmjöri og rúlla svo upp úr fuglafóðri. Snæri bundið í könglana eða klósettrúllurnar og þeim komið fyrir á greinum trjáa.

 

Leiðir

  • Vettvangsferð að vori í skógarlundinn Tröð til að tína köngla sem þekja má með fuglafóðri þegar hart verður í ári.

  •  Klósettrúllur nýttar í sama tilgangi og hengdar upp á tré þegar fuglafóðrinu hefur verið komið utan um þær.

 

Hlutverk kennara

Að útskýra fyrir nemendum hvers vegna það er erfitt smáfuglunum að finna æti þegar það er kalt og snjór úti. Leggja áherslu á mikilvægi hjálpsemi þegar kemur að þeim sem minna mega sín. Gott er að vera búin að kynna sér tegundir smáfuglanna og hvaða æti reynist best að gefa þeim. Það er t.d. hægt að skoða hér á Vísindavefnum.

20190210_125846.jpg
20190210_130036.jpg
20190210_130759.jpg
20190210_130145.jpg
20190210_130717.jpg
20190210_130412.jpg
millilína heimasíða.png
bottom of page